Mjúkir kanilhnútar

Þegar ég vann á Scandinavian Embassy í Amsterdam lærði ég af norskri vinkonu minni, Kristinu Larsdottur, að gera bestu kanilsnúða, eða réttara sagt kanilhnúta, sem ég hef nokkurn tímann smakkað. Gullinbrúnir, eilítið stökkir að utan, mjúkir að innan og með angan af kardimommum og kanil, eru þeir alveg ómótstæðilegir. Það er ekki hægt að afþakka nýbakaða og volga kanilhnúta með ískaldri nýmjólk.

Í Svíþjóð er til nokkuð órætt hugtak sem kallast fika og er mikilvægt í sænskri menningu. Það merkir nokkurn veginn að taka sér pásu og fá sér kaffi og meðí. En merkingin er mun dýpri en það og fjallar um það hugarfar að slappa af, njóta þess að vera til og verja tíma í góðra vina hópi.

Í 16 væna snúða

Innihald

Snúðar
800 grömm hveiti
150 grömm sykur
12 grömm þurrger
10 grömm malaðar kardimommur
5 grömm salt
400 grömm köld nýmjólk
1 egg
150 grömm mjúkt smjör

Fylling
100 grömm púðursykur
50 grömm smjör, bráðið
2 matskeiðar kanill

Leiðbeiningar

  1. Blandið öllum þurrefnunum: hveiti, sykri, þurrgeri, möluðum kardimommum og salti í hrærivélarskál. Þeytið eggið og mjólkina saman og hellið út í þurrefnin.
  2. Hnoðið með deigkrók á miðlungshraða í um 15 mínútur. Bætið þá smjörinu við í litlum skömmtum á meðan hrærivélin gengur. Þegar búið er að vinna allt smjörið inn í deigið er vel rakt stykki sett yfir og deigið látið hefast við stofuhita í um klukkutíma (eða inn í kæliskáp yfir nótt) eða þar til það hefur tvöfaldast að umfangi.
  3. Blandið púðursykri, bráðnu smjöri og kanil fyrir fyllinguna.
  4. Kýlið loftið úr deiginu og hnoðið það í stutta stund. Fletjið það út með kökukefli á vel hveitistráðu borði í ferhyrning sem er 45 sentímetrar á lengd og 30 sentímetrar á breidd.
  5. Snúið annarri langhliðinni að ykkur og smyrjið fyllingunni á tvo þriðju af deiginu sem nær ykkur eru. Brjótið efri þriðjung deigsins (sem ekki er með fyllingu) niður að miðju deigsins og svo neðri þriðjunginn yfir hann. Þá ætti að vera kominn ferningur sem er 10 sentímetrar á breidd.
  6. Fletjið deigið varlega út þannig að breiddin á deiginu verði 20 sentímetrar. Flytjið deigið á skurðarbretti og skerið í 16 jafnþykkar ræmur. Ef brettið er lítið, er hægt að skera deigið í tvennt, fletja hlutana tvo út sitt í hvoru lagi og skera hvorn þeirra í 8 ræmur.
  7. Takið eina ræmuna, snúið upp á hana og haldið um annan endann með þumalfingri, vísifingri og löngutöng vinstri handar. Takið um hinn endann með hægri hendinni og snúið deiginu rangsælis í um einn og hálfan hring utan um putta vinstri handar. Opnið miðjuna á deiginu með vísifingri og löngutöng vinstri handar, grípið deigendann með þeim puttum og dragið í gegnum miðjuna. Speglið þessar leiðbeiningar ef þið eru örvhent.
  8. Raðið öllum hnútunum á bökunarplötu með smjörpappír. Leggið rakt stykki yfir þá og látið hefast í um klukkutíma eða þar til þeir hafa tvöfaldast að stærð.
  9. Forhitið ofn í 180°C. Penslið hnútana vel með slegnu eggi og stráið perlusykri yfir þá. Bakið í um 15 mínútur eða þar til þeir eru fallega gullinbrúnir. Penslið þá aftur með slegnu eggi um leið og þeir koma úr ofninum til að þeir fái girnilegan háglans.