Óbyggðableikja

Arna Björg og Denni reka fjölbreytta ferðaþjónustu á Óbyggðasetrinu að Egilsstöðum í Fljótsdal. Bæði gegna þau margvíslegum hlutverkum en þau veita ferðamönnum leiðsögn um Óbyggðasafnið og umhverfið við rætur Vatnajökuls, reka gistiheimili og svo þarf að fæða þá fjölmörgu gesti sem koma í heimsókn. Oft er margt um manninn í kvöldmat hjá þeim og gott að geta reitt fram eitthvað einfalt, fljótt en ótrúlega bragðgott. Þegar matur er einfaldur þá er aðalatriðið að nota allra ferskasta hráefni sem völ er á og leyfa því að njóta sín.

Fyrir 4

Innihald

Ofnbakaðar kartöflur
500 grömm litlar nýjar kartöflur, skolaðar og þerraðar vel
1 matskeið ólífuolía
50 grömm smjör
Salt og nýmalaður pipar

Bleikja
100 grömm smjör
100 grömm rúsínur
100 grömm möndluflögur
800 grömm bleikjuflök
Salt og nýmalaður pipar
1 lúka fersk steinselja, fínsöxuð

Léttsteikt beðja
500 grömm beðja í öllum regnbogans litum
2 matskeiðar ólíufolía
4 hvítlauksgeirar, maukaðir
Sítrónusafi úr ½ lítilli sítrónu
Salt og nýmalaður pipar

Leiðbeiningar

Ofnbakaðar kartöflur
Forhitið ofn í 200°C. Setjið þurrar kartöflur í ofnskúffu og veltið upp úr ólífuolíu, salti og pipar. Setjið klípur af smjöri hér og þar og bakið þær í 45 mínútur eða þar til þær eru meyrar í gegn. Veltið kartöflunum um af og til á meðan þær eru í ofninum. Hægt er að bæta við maukuðum hvítlauk seinustu 5 mínúturnar og strá yfir þær ferskum kryddjurtum þegar þær koma út úr ofninum.

Bleikja
Forhitið ofn í 200°C. Setjið smjör, rúsínur og möndlur í lítinn pott og eldið í stutta stund eða þar til smjörið er bráðið og rúsínurnar mjúkar. Þerrið bleikjuna vel og leggið á ofnplötu með smjörpappírsörk. Saltið og piprið fiskinn og dreifið svo helmingnum af möndlu-rúsínusmjörinu yfir. Bakið bleikjuna í um 10 mínútur en tíminn fer mikið eftir stærð hennar. Hún á enn að vera örlítið djúpbleik í miðjunni. Dreifið saxaðri steinselju yfir og berið fram með restinni af möndlu-rúsínusmjörinu.

Léttsteikt beðja
Fjarlægið stilkana af beðjunni og skerið í 5 sentímetra bita. Hitið olíuna í stórum potti eða pönnu yfir miðlungshita og steikið stilkana í um 5 mínútur. Skerið blöðin af beðjunni í þykka renninga og bætið út í pottinn ásamt hvítlauknum og sítrónusafanum. Steikið blöðin í stutta stund og kryddið síðan með salti og pipar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

one + twenty =