Ostafrauð

Handa 4 í forrétt

ostafraudÍ raun felur þessi uppskrift í sér tvær aðrar uppskriftir: uppstúf, en flestir kannast eflaust við til dæmis kartöfluuppstúf og mornaysósu, sem er uppstúf að viðbættum osti og eggjarauðum. Mornaysósa fer vel með fiskréttum, grænmeti, pasta og í gratín. Fyrir ostafrauðið er fyrst búinn til þykkur jafningur en með meiri mjólk væri komið þetta fína uppstúf. Þegar osturinn og eggjarauðurnar eru komnar út í verður þetta að mornaysósu.

Mikilvægt er að sjóða uppstúfið í 3 mínútur til að koma í veg fyrir að hrátt hveitibragði verði af sósunni.

Eggjahvíturnar ætti ekki að þeyta fyrr en rétt áður en þarf að nota þær því þær missa loft mjög fljótt. Mikilvægt er að stífþeyta eggjahvíturnar til að hámarka loftið í þeim, því meira loft sem er í þeim því meira mun frauðið rísa. Ástæðan fyrir því að fjórðungi eggjahvítanna er fyrst bætt út í ostasósuna er til þess að þynna sósuna út þannig að auðveldara verði að blanda restinni saman við og lámarka þannig tap á lofti.

Í þættinum bý ég til frauð úr tveimur eggjum og baka það í ½  lítra formi sem er fínn skammtur fyrir einn í góðan hádegisverð. Frauðið er þá bakað við 180°C í um 20 mínútur. Uppskriftin hér er með þremur eggjum og hentar vel fyrir fjóra í forrétt. Þar sem frauðin í þessari uppskrift eru í minni formum þá er ofnhitinn hækkaður í 190°C og bökuð í styttri tíma.

Innihald

1 matskeið smjör
1 matskeið hveiti
125 millilítrar volg mjólk
50 grömm bragðmikill ostur (til dæmis Ísbúi), rifinn
3 egg, aðskilin
Salt
Cayennepipar
Nýmalað múskat
Graslaukur, saxaður

Leiðbeiningar

  1. Hitið ofninn í 200°C og smyrjið fjögur 200 millilítra form vel með smjöri. Bræðið smjörið við vægan hita í miðlungsstórum potti, bætið öllu hveitinu út í einu og hrærið vel í. Eldið smjörbolluna varlega í um 3 mínútur án þess að hún taki lit. Hellið volgri mjólkinni jafnt og þétt út í og hrærið stöðugt í þar til að blandan er orðin slétt og engir kekkir sjáanlegir. Haldið áfram að hræra og eldið mjólkurjafninginn í 3 mínútur en hann verður tiltölulega þykkur. Takið pottinn af hitanum og hrærið ostinum saman við. Þegar osturinn hefur bráðnað, bætið þá við einni eggjarauðu í einu og hrærið vel á milli. Kryddið eftir smekk með salti, cayennepipar og múskati. Leyfið ostasósunni að kólna lítillega.

  2. Stífþeytið eggjahvíturnar, bætið fjórðungi þeirra í ostasósuna og hrærið vel saman með sleikju. Bætið við restinni af eggjahvítunum og blandið öllu ofurvarlega saman með því að hræra bæði í hringi og líka upp og niður til að ná upp ostasósunni sem situr á botninum. Ekki hræra of mikið í frauðinu heldur eingöngu nægilega mikið til að ostasósan og eggjahvíturnar blandist að mestu leyti saman. Það er í lagi ef það eru litlar hvítar skellur af eggjahvítu sjáanlegar.

  3. Hellið frauðinu varlega í formin þannig að það nái þrjá fjórðu hluta upp hliðar þeirra. Lækkið hitann niður í 190°C og bakið frauðin í um 10-15 mínútur.

  4. Stráið rifnum osti og söxuðum graslauk yfir frauðin áður en þau er borin fram.