Pasta Caprese

pasta-caprese

Þetta er sá réttur sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, sérstaklega á sumrin. Pasta með marineruðum tómötum, mozzarella og basilíkum. Ég segi þetta ekki um marga rétti en þetta pasta er svo gott að ég gæti borðað það á hverjum einasta degi. Vanalega þá kaupi ég penne rigatte til að hafa í réttinn en mér finnst gaman að gera mitt eigið pasta og prófa mig áfram með mismunandi pastagerðir. Í þessari uppskrift geri ég garganelli sem svipa nokkuð til penne rigatte. Mismunandi pastagerðir henta með mismunandi sósum en svona rákað túbulaga pasta finnst mér frábært alhliða pasta, því sósan festist bæði inni í því og svo í rákunum.

Ef þið kaupið mozzarella úr kúamjólk þá er best að skera hann í bita og setja í frysti í um 15 mínútur áður en honum er bætt í heitt pastað. Ef það er ekki gert þá á hann það til að bráðna í ólystugar klessur. Þetta á ekki við mozzarella úr buffalamjólk.

Fyrir fjóra til sex

Innihald

Pastadeig fyrir garganelli
300 grömm hveiti
½ teskeið salt
3 egg
3 eggjarauður

Marineraðir tómatar
500 grömm kirsuberjatómatar, skornir til helminga eða fjórðunga
1 skalottlaukur, fínsaxaður
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
1 matskeið ferskur sítrónusafi
4 matskeiðar jómfrúarolía
½ teskeið salt
¼ teskeið nýmalaður svartur pipar
500 grömm garganelli
300 grömm bocconcini (litlar mozzarellakúlur), skornar til helminga
1 stór lúka af ferskum basilíkublöðum, skorin í ræmur

Leiðbeiningar

  1. Setjið hveitið í hrúgu á borð og gerið hvilft í miðjuna. Brjótið eggin ofan í og saltið. Notið gaffal til að slá eggin og bætið við hveiti úr hliðunum smátt og smátt. Þegar deigið er farið að taka á sig mynd, notið þá fingurna til að hnoða meira hveiti í það. Setjið deigið til hliðar þegar það er orðið nægilega þurrt og hreinsið borðið. Hnoðið deigið í um 10 mínútur eða þar til það er orðið teygjanlegt og slétt. Pakkið deiginu í plastfilmu og látið það hvíla í kæliskáp í að minnsta kosti klukkutíma.
  2. Takið pastadegið úr kæliskápnum og skerið í þrjá hluta. Mótið hvern hluta í ferhyrning og rennið þeim í gegnum víðustu stillingu á pastavél. Á meðan unnið er með einn hluta eru hinir hlutarnir geymdir í röku stykki. Þrengið stillinguna á pastavélinni og rennið öllum þremur hlutunum aftur í gegn. Gott er að dusta deigið með hveiti af og til. Haldið áfram að renna deiginu í gegnum pastavélina þar til deigið er orðið það þunnt að hægt er að sjá útlínur og húðlit handanna í gegnum það.
  3. Vinnið með einn deighluta í einu og geymið hina undir röku stykki svo þeir þorni ekki. Skerið deigið í ferninga sem eru 5 sentímetrar á kant. Leggið hvern ferning á gnocchi-bretti (rifflað viðarbretti) með eitt hornið að ykkur og rúllið þeim utan viðarprjón. Safnið túbunum saman á stóran hveitistráðan disk.
  4. Blandið saman tómötunum, skalottlauk, hvítlauk, sítrónusafa, jómfrúarolíu, salti og pipar. Látið tómatana marinerast á meðan pastað sýður.
  5. Hitið vatn í stórum potti og saltið vel þegar vatnið bullsýður.  Setjið pastað út í og sjóðið í 1-3 mínútur. Hellið pastanu í sigti og látið renna af því í stutta stund. Hrærið pastanu, mozzarella ostinum og basilíkunni við marineruðu tómatana og berið strax fram.