Pönnusteiktur áll

Állinn byrjar lífshlaup sitt í djúpum Þanghafsins og er allt að 3 ár á leiðinni til landsins. Hann gengur í íslenskar ár sem örlítill gleráll en umbreytist svo í það sem kallast guláll. Sumir álar dvelja hér í rúman áratug og eru þá orðnir allt að metri á lengd og kíló að þyngd. Þá halda þeir aftur suður á bóginn til að hrygna og það eru þessir niðurgönguálar sem mest varið er í.

Álaveiðar hafa aldrei verið mjög algengar hér á landi en um 1960 var gerð tilraun með þær og veiddust þá um 15 tonn víðs vegar um landið. Notaðar voru hollenskar álagildrur og állinn fluttur lifandi til Hollands. Árið eftir var reist álareykhús í Hafnarfirði og reynt að auka veiðarnar en meðallengd álsins varð sífellt minni og lokum lögðust veiðarnar af. Nú fer lítið fyrir álaveiðum nema á stöku stað á landinu.

Ríta og Páll í Grenigerði hafa búið hér í áratugi en eru upprunalega frá Danmörku. Þar er algengt að fólk veiði sér ála í matinn og hafa hjónin haldið uppteknum hætti hér á landi. Á haustin setja þau sérstakar álagildrur í læki í Borgarfirðinum og bíða eftir vondu veðri en þá fer állinn á stjá. Þau vitja gildranna reglulega og færa álinn í holan kassa sem þau geyma í læknum. Þegar nóg af ál er komið í kassann slá þau upp veislu ásamt heimilisfólkinu í Ferjukoti. Ríta og Páll mæla með því að verka álinn samdægurs í stað þess að frysta hann, því þannig sé hann bestur.

Heimildir:
Hafrannsóknarstofnun – http://www.hafro.is/images/lifriki/all1.pdf
Bændablaðið – http://www.bbl.is/frettir/frettir/hvetur-baendur-til-alaveida/14805/

Innihald

Fyrir 4

2 kg nýveiddir álar, slægðir, roðflettir og skolaðir
Rúgmjöl
Ólífuolía
Hvítlaukssalt
Nýmalaður svartur pipar
Smjör

Leiðbeiningar

Skerið álinn í um 7 sentímetra bita og veltið þeim upp úr rúgmjöli. Hitið ólífuolíu á stórri þykkbotna pönnu við háan hita, bætið fiskinum á pönnuna og lækkið síðan niður í miðlungshita. Kryddið með hvítlaukssalti og svörtum pipar. Steikið álinn í um 20 mínútur, hálftíma ef hann er mjög þykkur, og bætið við klípu af smjöri á pönnuna rétt í endann og ausið yfir fiskinn. Þerrið hann á eldhúspappír og berið strax fram með kartöfluuppstúf og góðum snafs.