Rabarbarabrauð

rabarbarabrauð

Aðalmunurinn á sódabrauði og hefðbundnu brauði er sá að í því fyrra er matarsódi í stað gers og er það töluvert léttara í maga og er áferðin á því öðruvísi, mitt á milli þess að vera brauð og kaka. Ekki þarf að hefa né hnoða deigið í sódabrauð og er það því fljótgerð og hentug viðbót við hefðbundin gerbrauð.

Til að virkja matarsódann í brauðinu þá þarf einhvers konar sýru og í þessari uppskrift er það súrmjólkin sem sér um það en einnig púðursykurinn því melassinn í honum inniheldur mjólkursýru og svo er rabarbarinn sjálfur súr. Það er því ekki hægt að skipta súrmjólkinni svo auðveldlega út fyrir venjulega mjólk í þessari uppskrift. Sýran frá púðursykrinum og rabarbaranum er ekki nóg og mun brauðið ekki rísa nægilega vel. Óvirkjaður matarsódi munn auk þess ljá brauðinu vont málmkennt bragð.

Einhverjir velta kannski fyrir sér hvort þeir geti skipt matarsódanum út fyrir lyftiduft, og er það hægt að vissu leyti. Matarsódi er hreint natríumbíkarbónat og þegar það leysist upp í vökva og kemst í snertingu við sýru myndast koltvísýringur, sem lyftir brauðinu. Lyftiduft er hins vegar blanda af matarsóda, sýru í duftformi og sterkju og þarf eingöngu vatn til þess að koma efnahvarfinu af stað. Í einni matskeið af lyftidufti er um fjórðungsteskeið af matarsóda. Því væri í raun hægt að skipta matarsódanum í uppskriftinni út fyrir fjórar matskeiðar af lyftidufti en þá væri eflaust ráðlegra að skipta súrmjólkinni út fyrir venjulega mjólk því annars verður deigið of súrt.

Bakið eingöngu eins mörg brauð í einu og komast fyrir í ofninum. Ef deigið er látið standa í lengri tíma gufar koltvísýringurinn í deiginu upp og brauðið rís ekki nægilega vel.

Í eitt brauð

Innihald

Brauð
350 grömm hveiti
100 grömm heilhveiti
100 grömm tröllahafrar
2 matskeiðar púðursykur
1 teskeið salt
1 teskeið matarsódi
450 millilítrar súrmjólk
50 grömm brætt smjör
1 egg

Sykraður rabarbari
200 grömm rabarbarastilkar, skornir í þykka bita
100 grömm sykur

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofninn í 180°C. Kuðlið smjörpappírsörk saman í bolta, sléttið úr henni aftur og leggið í 2 lítra brauðform.
  2. Blandið saman hveiti, hveilhveiti, höfrum, púðursykri, salti og matarsóda í stórri skál. Hrærið saman súrmjólk, bræddu smjöri og egginu í annarri smærri skál.
  3. Setjið rabarbarastilkana í lítinn pott ásamt sykri og hitið yfir háum hita. Hrærið oft í pottinum, þar til sykurinn hefur bráðnað og rabarbarinn orðinn örlítið linur, um 3-5 mínútur. Færið rabarbarann með gataspaða yfir í skálina með þurrefnunum og veltið honum um svo hann sé tiltölulega jafndreifður um skálina.
  4. Hellið blautefnunum saman við þurrefnin og hrærið öllu vel saman. Setjið deigið strax í brauðformið og beinustu leið inn í ofn. Bakið brauðið í 45 mínútur eða þar til kjarnhitastig þess er orðið 90°C.