Rabarbaralíkjör

rabarbaralíkjör

Ítalir gera limoncello, eða sítrónulíkjör, þar sem sítrónubörkur er látinn liggja í vodka. Sykursírópi er síðan bætt út í til að gera dýrindis líkjör sem borinn er fram ískaldur. Ítalskir vinir mínir segja mér að það taki 80 daga að gera þennan líkjör, en ef maður hefur ekki tíma eða þolinmæði til að bíða svo lengi þá er hægt að hraða ferlinu með því að nota eitthvað sem margir eiga heima hjá sér – nefnilega rjómasprautu.

Þótt nafnið gefi það kannski til kynna, þá er rjómasprauta ekki eingöngu til að þeyta rjóma. Með henni er nefnilega hægt að bragðbæta hinu ýmsu vökva, svo sem áfengi, síróp og olíur, með nánast hverju sem er. Þá er vökvinn settur ásamt bragðgjafa í flöskuna og hún hlaðin með rjómasprautuhylkjum (N2O eða nituroxíð). Gasið leysist upp í vökvanum og myndar einnig þrýsting í flöskunni. Flaskar er látin standa í nokkra stund og kemur gasið sér þá fyrir í frumum bragðgjafans. Þegar þrýstingnum er létt af þenst gasið út, sprengir frumuveggina og öll bragðefnin læðast út í vökvann. Þetta er aðferð sem Dave Arnold gerði vinsæla fyrir nokkrum árum. Í þessari uppskrift þá nýti ég rjómasprautuna til að gera rabarbaravodka, sem ég blanda síðan við rabarbarasíróp svo úr verður unaðslegur rabarbaralíkjör.

Venjulega þegar ég geri síróp þá blanda ég saman sykri og vatni í jöfnum hlutföllum, næ upp suðunni og bæti síðan við einhverjum bragðgjafa. Þá slekk ég undir pottinum, leyfi sírópinu að standa þar til það er við herbergishita og sía það. Þegar ég notaði þessa aðferð á rabarbarann þá fannst mér ekki koma nógu tært rabarbarabragð heldur var augljóst að hann hafi verið eldaður. Ég tók því þá ákvörðun að blanda grófskornum rabarbara og sykri saman og láta hann standa yfir nótt. Daginn eftir var komið þetta djúprauða síróp með ótrúlega tæru rabarbarabragði.

Í um 1,5 lítra af líkjör

Innihald

Rabarbarasíróp
2 kíló rabarbarastilkar, skolaðir og skorinn í þunnar sneiðar
1 kíló sykur

Rabarbaravodki
200 grömm rabarbarastilkar, skolaðir og skorinn í þunnar sneiðar
750 millilítrar góður vodki, við herbergishita

Leiðbeiningar

  1. Blandið rabarbara og sykri saman í stóru íláti og látið standa yfir nótt. Hellið sírópinu í gegnum sigti, ofan í skál. Úr tveimur kílóum af rabarbara ættu að fást um 750 millilítrar af sírópi.
  2. Setjið rabarbarann í 1 lítra rjómasprautu og fyllið hana síðan upp með vodka. Hlaðið flöskuna með tveimur rjómasprautuhylkjum (N2O) og hristið hana eftir hvert hylki. Látið flöskuna standa í 5 mínútur. Hafið flöskuna upprétta, beinið stút sprautunnar í glas (hafið skál mögulega undir ef eitthvað skildi leka úr glasinu) og léttið þrýstingnum hratt af. Hellið vodkanum í gegnum sigti og á flöskur.
  3. Það fer síðan eftir smekk fólks hversu sætt það vill hafa líkjörinn. Mér finnst kjörið að blanda vodkanum og sírópinu í jöfnum hlutföllum. Vodkanum er þá skipt á milli tveggja 750 millilítra flaskna og fyllt upp með sírópinu. Geymið líkjörinn í kæli eða frysti.