Rauðrófuís

raudrofuis

Venjulega eru eggjarauður notaðar til að þykkja búðinga í ísgerð en oft finnst mér þær gefa ísnum of mikið eggjabragð. Í þessari uppskrift þykki ég búðinginn með kartöflumjöli og þannig fá rauðrófurnar að njóta sín. Ástæðan fyrir rjómaostinum er sú að í honum er mikið af próteini sem kallast kasein sem hjálpar til við að koma í veg fyrir ískristallamyndun þegar ísinn er frystur. Markmiðið er að ískristallarnir í ísnum verði eins fáir og litlir og mögulegt er, svo ísinn verði alveg flauelsmjúkur.

Um 1 lítri af ís

Innihald

1 stór rauðrófa
500 millilítrar mjólk
4 teskeiðar kartöflumjöl
250 millilítrar rjómi
150 grömm sykur
¼ teskeið salt
Börkur af einni appelsínu, hvíti hlutinn fjarlægður eins mikið og mögulegt er
5 negulnaglar
3 matskeiðar rjómaostur
2 matskeiðar birkifræ

Leiðbeiningar

  1. Berið olíu á rauðrófuna, pakkið henni í álpappír og bakið í 180°C heitum ofni í um klukkutíma eða þar til hún er elduð í gegn. Látið hana kólna þannig að hægt sé að meðhöndla hana. Flysjið rauðrófuna, maukið og setjið til hliðar.

  2. Blandið saman 2 matskeiðum af mjólkinni við kartöflumjölið í lítilli skál og setjið til hliðar. Hrærið saman restinni af mjólkinni við rjómann, sykurinn og saltið í miðlungsstórum potti. Bætið við appelsínuberkinum og negulnöglunum. Hitið á miðlungsháum hita og sjóðið í 5 mínútur. Hrærið stöðugt í pottinum og skrapið botninn svo mjólkin brenni ekki við eða sjóði upp úr.

  3. Setjið rjómaostinn í stóra skál og hrærið hann út með góðri ausu af heitri mjólkurblöndunni. Takið pottinn af hitanum, hrærið í kartöflumjölinu og bætið því svo í pottinn. Setjið pottinn aftur á helluna, hrærið stöðugt í og sjóðið blönduna í um 1 mínútu eða þar til hún er byrjuð að þykkna og orðin að búðingi. Hellið búðingnum í skálina með rjómaostinum og blandið vel saman. Leggið plastfilmu á yfirborð búðingsins (til að koma í veg fyrir að húð myndist) og kælið í klakabaði.

  4. Sigtið búðinginn þegar er orðinn kaldur til að ná appelsínuberkinum, negulnöglunum og mögulegum kekkjum úr honum. Frystið svo í ísvél eftir leiðbeiningum framleiðanda. Ef ísvél er ekki til staðar er hægt að frysta búðinginn í eldföstu móti í 4 tíma og mauka hann síðan í matvinnsluvél eða frysta hann í eldföstu formi og hræra í blöndunni á 45 mínútna fresti þar til hann er farinn að líkjast mjúkum ís úr vél.

  5. Hrærið birkifræjunum saman við. Setjið ísinn í það ílát sem hann verður borinn fram í, leggið plastfilmu þétt við yfirborðið og frystið í að minnsta kosti 4 klukkustundir.