Rauðrófusteik

Fyrir 4 í forrétt

raudrofusteikÞegar ég vann á bóndabýlinu Wyebrook Farm í Pennsylvaníuríki í Bandaríkjunum fór ég með eigandanum á veitingastaðinn The Farm and the Fisherman í Philadelphiu. Þar fékk ég besta rauðrófurétt sem ég hef á ævi minni smakkað, nefnilega rauðrófusteik.

Rauðrófur eru mjög litsterkar og er því best að vera með svuntu þegar unnið er með þær og jafnvel gúmmíhanska ef fólk vill ekki verða rautt á fingrunum. Einnig er ráð að hylja skurðarbretti með smjörpappír til að koma í veg fyrir bletti.

Innihald

2 stórar rauðrófur
Ólífuolía
Salt
Nýmalaður pipar
2 matskeiðar smjör
1 lítill ferskur laukur eða 1 stór skalottlaukur, fínsaxaður
3 greinar garðablóðberg (timjan)
100 millilítrar gott soð, til dæmis nauta- eða lambasoð.
1 matskeið rauðvínsedik
1 matskeið hunang
200 grömm skyr, hrært og ósætt
Gott og gamalt balsamedik
Maldon salt
Hjartafró eða sítrónumelissa

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofninn í 180°C. Smyrjið rauðrófurnar með olíu og kryddið með salti og pipar. Bakið þær í um tvo tíma eða þar til þær eru eldaðar í gegn.

  2. Látið rauðrófurnar kólna þar til hægt er að meðhöndla þær. Flysjið þær og skerið þversum til helminga, það er í gegnum miðjuna en ekki í gegnum pólana.

  3. Hitið um tvær matskeiðar af olíu á stórri pönnu á miðlungshita. Setjið rauðrófuhelmingana á pönnuna með skurðflötinn niður og notið botninn á lítilli pönnu eða littlum potti til að fletja rófurnar út. Steikið þær þar til þær eru gullinbrúnar.

  4. Snúið rauðrófunum við og bætið við smjöri, lauk og garðablóðbergi. Ausið bragðríku smjörinu yfir rauðrófuna í 3-4 mín.

  5. Takið rófurnar af og haldið heitum. Hellið soði, rauðvínsediki og hunangi á pönnuna og sjóðið niður þar til það verður að sírópi.

  6. Smyrjið skyri á miðjuna á hverjum diski og setjið rauðrófusteikurnar ofan á skyrið. Ausið ilmandi pönnusósunni á og dreitlið balasmedikinu yfir. Stráið salti yfir hverja steik og skreytið með sítrónumelissu.