Ricotta

Gerir 400 grömm

ricottaEkta ricotta er gerður úr mysunni sem fellur til úr annarri ostagerð en orðið merkir bókstaflega endursoðin. Mysan er hituð aftur upp til að ná öllum mögulegum ostefnum úr henni sem hugsanlega geta setið eftir en þetta er gert til þess að nýta mjólkina til hins ýtrasta. Það er hægara sagt en gert að nálgast nógu mikið magn af mysu til að gera ricotta að einhverju ráði og nota ég því nýmjólk í þessari uppskrift. Sama aðferð er notuð til að búa til indverska ostinn paneer.

Það er hægt að sýra mjólkina með öðru en ediki, svo sem sítrónusafa eða súrmjólk, en hvort tveggja gefur ostinum þá mjög einkennandi bragð sem getur verið mjög gott. Einnig er hægt að skipta út hluta af mjólkinni fyrir rjóma til að gera feitari ost.

Ekki láta mysuna fara spillis því hún er tilvalin í stað vatns í til dæmis brauðuppskriftir og það má nota hana á ótal spennandi vegu, svo sem til að leggja baunir í bleyti og vökva plöntur.

Heimagerður ricotta er fulkominn fyrir þá sem vilja byrja á að fikra sig áfram í ostagerð því hann er einfaldur og tekur enga stund að laga. Fyrir þá sem vilja spreyta sig á flóknari ostum þá er hægt að nálgast öll tól og tæki á www.ostagerd.is.

Innihald

2 lítrar nýmjólk
4 matskeiðar 5% borðedik
1 teskeið salt

Leiðbeiningar

  1. Hrærið mjólkinni, edikinu og ½ teskeið af salti vel saman í miðlungsstórum potti og hitið rólega á lágum hita upp í 80°C. Hrærið oft í með sleikju og skrapið botninn á pottinum til að koma í veg fyrir að mjólkin brenni við.

  2. Þegar mjólkin nær 80°C og mysan er orðin gulgræn á lit, rennið sleikju meðfram brúnum pottsins til að losa ostefnin. Setjið lok á pottinn, takið hann af hitanum og látið standa í 10 mínútur.

  3. Setjið sigti í skál, leggið sótthreinsaðan grisjuklút ofan í og flytjið ostinn yfir í klútinn með gataspaða. Stráið ½ teskeið af salti yfir ostinn og veltið honum rólega um. Leggið horn klútsins yfir ostinn til að hylja hann og leyfið mysunni að leka af honum í um 5 mínútur, eða lengur ef óskað er eftir þurrari osti.

  4. Osturinn geymist í kæliskáp í um viku en er bestur nýlagaður.