Rjómaostur

rjomaostur

Rjómaostur er ein auðveldasta mjólkurafurð sem hægt er að gera heima hjá sér, jafnvel auðveldari  en ricotta og jógúrt. Það eina sem þarf að gera er að leyfa öllum innihlaldsefnunum að ná herbergishita, blanda þeim saman og vera síðan þolinmóður. Það er hægt að hita mjólkina og rjómann í potti en mér finnst þægilegast og einfaldast að leyfa þeim bara að standa út á borði, jafnvel yfir nótt.

Bindiefni eru notuð í flesta fjöldaframleidda rjómaosta til að þétta ostinn og finnst mér þeir margir hverjir tiltölulega flatir á bragðið og óspennandi. Með því að nota lifandi gerla og leyfa ostinum að þroskast verður bragð ostsins mun dýpra og flóknara og svo fer áferð ostsins alveg eftir því hve lengi hann hangir. Þessu öllu er hægt að stjórna þegar maður gerir hann heima hjá sér.

Innihald

500 millilítrar rjómi, við herbergishita (um 23°C)
500 millilítrar mjólk, við herbergishita
3 matskeiðar súrmjólk
2 dropar ostahleypir, hrærðir út í 50 millilítra af herbergisheitu vatni
¼ teskeið salt

Leiðbeiningar

  1. Leyfið öllum innihaldsefnunum að ná herbergishita.
  2. Blandið saman rjómanum og mjólkinni og hrærið því næst súrmjólkinni saman við. Hrærið ekki eingöngu í hringi heldur einnig upp og niður svo súrmjólkin setjist ekki bara á botnin heldur blandist rjómablöndunni almennilega. Blandið útþynnta ostahleypinum saman við á sama hátt og súrmjólkinni.
  3. Leyfið blöndunni að standa við herbergishita (um 23°C) í hálfan sólarhring. Þá ætti áferðin á rjómaostinum að vera eins og af þykkri jógúrt. Flytjið ostinn þá yfir í sótthreinsaðan grisjuklút og hengið upp á svölum stað. Látið drjúpa af honum þar til hann er orðinn eins þykkur og þið kjósið.
  4. Saltið ostinn, hrærið hann út og setjið í fallegt ílát. Osturinn geymist í um tvær vikur í kæliskáp en hann verður súrari eftir því sem hann eldist.