Seytt hverarúgbrauð

hveraeldhús

Til eru margar tegundir af rúgbrauði og þekkist það víðar en á Íslandi, meðal annars á hinum Norðurlöndunum og í Austur-Evrópu. Það sem er hins vegar einkennandi við hinn týpíska íslenska rúgbrauðskubb, er hversu lengi hann er bakaður og hversu sætur hann er.

Það hafa ekki allir greiðan aðgang að hveraofni þannig að uppskriftin hér að neðan miðast við heimilisofn. Gott er að setja skál með vatni með í ofninn til að minnka líkurnar á því að hörð skorpa myndist á brauðinu.

Í eitt stórt brauð

Innihald

400 grömm rúgmjöl
250 grömm hveiti
1 matskeið matarsódi
1 matskeið salt
500 grömm síróp
1 lítri súrmjólk

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofninn í 100°C og smyrjið stórt form, sem tekur um fjóra lítra, vel með bráðnu smjöri. Hægt er að nota til dæmis brauðform, eldfasta glerskál eða áldollur til að baka í.

  2. Blandið þurrefnunum saman í skál. Bætið við sírópinu og súrmjólkinni og hrærið vel saman. Þess má geta að deigið verður vel blautt. Hellið deiginu í formið og lokið því vel með álpappír.

  3. Bakið brauðið í um 12 klukkustundir.