Skyr-parfait

með hrærðum bláberjum og hunangsristuðu granóla

Fyrir 4-6

skyr-parfaitÍ Frakklandi er „parfait“ bragðbætt eggjakrem sem blandað er þeyttum rjóma og svo fryst.  Ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en nýlega að ég borða „parfait“ á hverju ári. Þetta er jólaísinn sem móðir mín býr til um hver jól. Uppskriftin hennar er úr dönsku bókinn Mad eftir Ingeborg Suhr frá árinu 1953 og kallast frosinn rjómi.  Í Bandaríkjunum á orðið „parfait“ bæði við um franska eftirréttinn en einnig lagskiptan rétt gerðan úr ís, kremi eða jógúrt; berjum og oft hnetum.

Sauðaskyr var mun algengara á árum áður og þótti það betra. Í bók sinni Matur og drykkur frá 1949 segir Helga Sigurðardóttir: „Bezt verður skyrið úr sauðamjólk, þar næst úr nýmjólk eða undanrennu og venjulegast er hún notuð“. Sauðamjólkin er bragðmild, rjómakennd og örlítið sæt og ég skil ekki afhverju við Íslendingar notum hana ekki meira. Hana má til dæmis frysta án þess að það komi niður á bragðgæðum hennar og notkunarmöguleikum, ólíkt kúamjólkinni. Þeir sem vilja kynna sér sérstöðu skyrs bendi ég á skýrslu Þóru Valsdóttur og Þórarins Sveinssonar hjá Matís.

Í þennan eftirrétt nota ég hrærð bláber eða það sem mætti kallast bláberjahrásultu. Þar sem hún er ekki soðin upp þá er geymslutími hennar styttri og best að geyma hana í frysti. Bragðið af henni er nokkuð ólíkt bláberjasultu að því leyti að hrátt bláberjabragðið heldur sér einstaklega vel.

Það má leika sér með granólauppskriftina á alla mögulega vegu. Aðaluppistaðan eru hafrar en það má setja allar mögulegar tegundir af hnetum og fræjum saman við. Ég prófaði til dæmis að rista hveitifræ og bygg frá Ásgarði sem og maltað bygg. Það má líka skipta út sætuefnum og nota hrásykur, fífla- eða hlynsíróp og nota aðrar olíur svo sem valhnetu- eða heslihnetuolíu.

Innihald

Parfait
400 grömm óhrært sauðaskyr
200 millilítrar sauðamjólk
500 grömm hrærð bláber
Granóla

Hrærð bláber
Gerir 500 grömm
300 grömm bláber
200 grömm sykur

Granóla
Gerir um kíló
400 grömm tröllahafrar
400 grömm blandaðar hnetur og möndlur, grófhakkaðar eða heilar
100 grömm sólblómafræ
100 grömm sesamfræ
100 grömm ljós púðursykur
1 teskeið salt
100 grömm hunang
100 grömm sólblómaolía
1 teskeið salt

Leiðbeiningar

Hrærð bláber
Blandið saman bláberjum og sykri. Látið standa í 2 tíma og hrærið varlega í þeim af og til þar til sykurinn er allur uppleystur. Ef geyma á berin til lengri tíma er best að frysta þau.

Granóla

  1. Hitið ofninn í 150°C.

  2. Blandið saman höfrum, hnetum, möndlum, sólblómafræjum, sesamfræjum, ljósum púðursykri og salti í stórri skál.  Hitið hunang og sólblómaolíu í litlum potti yfir vægum hita í 5 mínútur. Hellið hunangsblöndunni yfir hafrablönduna og hrærið vel saman.

  3. Setjið granólað í ofnskúffu og dreifið jafnt úr því. Bakið í 45 mínútur og hrærið í því á 15 mínútna fresti. Látið granólað kólna alveg og geymið í loftþéttu íláti í allt að mánuð.

Parfait
Hrærið skyrið út með mjólk þar til það er silkimjúkt. Setjið 2 matskeiðar af hrærðum bláberjum á botninn á fallegu glasi, þá 3 matskeiðar af skyri og síðan 2 matskeiðar af granóla. Haldið svona áfram til skiptis þar til glasið er fullt. Stráið örlitlu granóla á toppinn.