Sláturgerð

slatur1Það er vart til íslenskari matur en blóðmör og lifrarpylsa og keppast margir við að taka slátur á haustin. Aldrei hafði ég tekið slátur fyrr en frú Jóhanna Guðjónsdóttir á Grund sýndi mér handtökin. Orðið blóðmör þekkist ekki úr íslenskum heimildum fyrr en á 17. öld en vel getur verið að rétturinn hafi verið til fyrir það. Lifrarpyslu er fyrst getið í íslenskum heimildum á 18. öld en verður ekki algeng fyrr en undir lok 19. aldar og eftir útgáfu Kvennafræðarans breiddust vinsældir hennar út. (Hallgerður Gísladóttir, 2002).

Byrjað er að kalóna eða hreinsa vambirnar með því að dýfa þeim í heitt vatn og skafa þær með hníf þar til þær eru orðnar hvítar. Þá er þær sniðnar í 4-6 jafnstóra hluta og keppir saumaðir úr þeim.

Heimildir:
Hallgerður Gísladóttir. „Hvenær var slátur fyrst búið til á Íslandi?“. Vísindavefurinn. 10.4.2002. http://visindavefur.is/?id=2285.

Innihald

Blóðmör
Gerir 4 keppi
1 lítri blóð, sigtað
200 millilítrar vatn
1 ½  teskeið salt
500 grömm rúgmjöl
300 grömm haframjöl
750 grömm mör, brytjaður niður
Rúsínur, ef vill

Lifrarpylsa
Gerir 4 keppi
400 grömm lifur (1 lifur)
100 grömm nýru (2 nýru)
300 millilítrar mjólk
1 ½  teskeið salt
300 grömm rúgmjöl
100 grömm haframjöl
100 grömm hveiti
400 grömm mör, brytjaður fínt niður

Leiðbeiningar

Blóðmör

  1. Blandið saman blóði, vatni og salti í stóru fati. Bætið við rúgmjöli og haframjöli og hrærið öllu vel saman með höndunum. Áferðin ætti að vera eins og á þykkum graut og ætti sleif að geta staðið upprétt í blóðjafningnum. Setjið mörinn út í rétt áður en vambirnar eru fylltar til að hann dragi ekki í sig of mikið blóð. Bætið við rúsínum eftir smekk ef vill.

  2. Fyllið vambirnar að tveimur þriðju hluta og saumið fyrir gatið eða notið sláturnálar. Stingið síðan á keppina svo þeir springi ekki við suðu. Best er að sjóða þá sem fyrst eða geyma í frysti í allt að ár.

  3. Sjóðið vatn í stórum potti og bætið við einni matskeið af salti fyrir hvern lítra af vatni. Setjið keppina út í sjóðandi vatnið og passið að það sé rúmt um þá. Sjóðið þá við vægan hita í um tvær klukkustundir og snúið á hálftíma fresti. Borðið blóðmörinn annað hvort heitan eða kælið niður og geymið í kæliskáp.

  4. Ef sjóða á frosna keppi setjið þá í pott með köldu vatni. Þegar suðan kemur upp, bætið við einni matskeið af salti fyrir hvern lítra af vatni. Lækkið hitann og sjóðið þá við vægan hita í um þrjár klukkustundir.

Lifrarpylsa

  1. Skolið og hreinsið nýrun og lifrina vel og fjarlægið allt sem er seigt. Af lambanýrum ætti að vera nóg að fjarlægja þunnu himnuna sem umlykur þau en af lifrinni þarf að fjarlægja himnuna og allan bandvef. Skerið innmatinn í bita og  hakkið tvisvar í hakkavél.

  2. Setjið innmatinn í stórt fat og blandið mjólk og salti saman við. Bætið þá við rúgmjöli, haframjöli og hveiti og hrærið öllu vel saman með höndunum. Áferðin ætti að vera eins og á þykkum graut og ætti sleif að geta staðið upprétt í jafningnum. Blandið að lokum mörnum saman við.

  3. Fyllið vambirnar að tveimur þriðju hluta og saumið fyrir gatið eða notið sláturnálar. Stingið síðan á keppina svo þeir springi ekki við suðu. Best er að sjóða keppina sem fyrst eða geyma í frysti í allt að ár.

  4. Sjóðið vatn í stórum potti og bætið við einni matskeið af salti fyrir hvern lítra af vatni. Setjið þá út í sjóðandi vatnið og passið að það sé rúmt um þá. Sjóðið þá við vægan hita í um tvær klukkustundir og snúið á hálftíma fresti. Borðið lifrarpylsuna annað hvort heita eða kælið niður og geymið í kæliskáp.

  5. Ef sjóða á frosna keppi setjið þá í pott með köldu vatni. Þegar suðan kemur upp, bætið við einni matskeið af salti fyrir hvern lítra af vatni. Lækkið hitann og sjóðið þá við vægan hita í um þrjár klukkustundir.