Smjör og áfasúpa

Handa 6

smjorÞað er hægt að búa til smjör með því fylla stóra krukku til hálfs með rjóma sem er við herbergishita og hrista svo duglega. Það er þó mun auðveldara að setja rjómann í hrærivél. Það tekur um 5 mínútur að hrista út smjör úr hálfum lítra af rjóma en örstutta stund í hrærivél. Reynið að ná sem mestum áfum úr smjörinu með því að skola það úr ísköldu vatni og hnoða, því þær minnka geymsluþol smjörsins. Með því að salta smjörið eykst geymsluþolið enn frekar. Smjörið ætti að endast í 2-3 vikur í kæli ef það hefur verið hreinsað vel af áfum en annar gæti það farið að súrna á innan við viku.

Uppskriftin af áfasúpu kemur úr Kvennafræðaranum eftir Elínu Jónsson. Ég á fjórðu prentun af bókinni frá 1911 en langalangamma mín, Kristín Sigurðardóttir, átti þá bók. Hægt er að nálgast gamlar matreiðslubækur á vefnum www.baekur.is. Þarna eru bækur eins og Kvennafræðarinn, Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott o.fl. og Einfaldt Matreidslu Vasa-Qver, fyrir heldri manna Húss-freyjur en hún var fyrsta matreiðslubókin sem gefin var út á Íslandi.

Í Kvennafræðaranum eru notaðar mælieiningar sem lítið sem ekkert sjást í uppskriftum nú til dags. Pottur er 1 lítri,  peli er 250 millilítrar og kvint er 5 grömm. Á einum stað í bókinni er mælieiningin pottur notuð en einnig skammstöfunin „pt.“. Ég gerði því ráð fyrir því að „pt.“ stæði fyrir pint, sem um það bil hálfur lítri, auk þess sem mér fannst 5 lítrar af áfum fullmikið í þessa áfasúpu. Nú er ég búinn að bera saman uppskriftir í Kvennafræðaranum og Nýju matreiðslubókinni ásamt ávísunum litun, þvott o.fl. og komst ég að því að „pt.“ stendur svo sannarlega fyrir pott.

Til að fá nægilegt magn af áfum til að gera áfasúpu handa 6 þyrfti að strokka um 10 lítra af rjóma. Úr því fengist tæplega 5 kílógrömm af smjöri og rúmlega 5 lítar af áfum en það fer allt eftir því hversu feitur rjóminn er og hversu vel hann er strokkaður. En borgar það sig að búa til sitt eigið smjör og nýta áfirnar? Einn lítri af rjóma kostar um 900 krónur út í búð og úr honum fást tæplega 500 grömm af smjöri. 500 grömm af smjöri kosta rúmar 300 krónur út í búð og kostar því þriðjung af því sem heimagert smjör kostar. Það er því ekki fjárhagslega hagkvæmt að gera sitt eigið smjör en það er skemmtilegt og gott fyrir sálina.

Það er yndislegt rjómabragð af áfunum en áferðin á þeim er eins og af undanrennu. Það er hægt að nota þær sem ferskan svaladrykk eða í bakstur.

Ég geri ekki ráð fyrir því að margir hlaupi út í búð og kaupi sér 10 lítra af rjóma til að gera áfasúpu fyrir sex. Smjöruppskriftin er því miðuð við  ½ lítra af rjóma en úr honum fæst tæplega 250 grömm af smjöri. Uppskriftin af áfasúpunni er eins og hún kemur fyrir í Kvennafræðaranum.

Innihald

Smjör
½ lítri rjómi, við herbergishita
1 teskeið salt

Áfasúpa
5 pottar áfir
30 kvint hrísmjöl
15 kvint sykur
15 kvint kúrennur
3 kvint kanel 

eða

5 lítrar áfir
150 grömm hrísmjöl
75 grömm sykur
75 grömm kúrennur
15 grömm kanill

Leiðbeiningar

Smjör
Þeytið rjómann á meðalhraða í hrærivél þar til smjörið hefur skilist frá áfunum. Hellið áfunum af og hnoðið smjörið vel í skálinni undir köldu rennandi vatni. Hellið vatninu af því af og til og þegar vatnið í skálinni er orðið tært er smjörið orðið nógu hreint. Dreifið smjörinu í þunnt lag á borð með deigsköfu og stráið salti yfir. Geymið í loftþéttu íláti.

Áfasúpa
„Þegar mjólkin með sykrinum, kúrennunum og kanelnum, er farin að sjóða er jafningur úr hrísmjölinu látinn út í. Eftir 15 mínútna suðu er súpan tilbúin.„ (Kvennafræðarinn, blaðsíða 40)