Steikarsamlokur

Í fjórar samlokur

steikarsamlokaVið buðum upp á þessar borgfirsku steikarsamlokur á bændamarkaðinum í Reykholti. Kornið í brauðinu kom frá Ásgarði, ricottaosturinn, rauðlaukssultan og salatið úr Árdal og nautakjötið var frá Glitstöðum í Norðurárdal.

Innihald

700 grömm nautainnanlæri, skorið í fjórar 2ja sentímetra þykkar steikur
Ólífuolía
Sjávarsalt
Nýmalaður pipar
8 stórar sneiðar heilhveitibrauð
300 grömm ricottaostur
300 grömm rauðlaukssulta
4 stór salatblöð, til dæmis smjör- eða klettasalat

Leiðbeiningar

  1. Hitið olíu á steypujárnspönnu við hæsta hita. Penslið kjötið með olíu og kryddið vel með sjávarsalti og nýmöluðum pipar. Þegar byrjar að rjúka úr pönnunni, steikið tvær steikur í einu í 2 mínútur á hvorri hlið fyrir medium-rare.

  2. Leyfið steikunum að hvíla í um 5 mínútur og skerið þær svo niður í um 5 millímetra sneiðar. Smyrjið brauðsneiðarnar með þykku lagi af ricottaosti, leggið kjötið ofan á ostinn, rauðlaukssultuna ofan á kjötið og toppið svo með salatblaði.