Stollen

stollen

Stollen krydduð kaka (eða brauð) sem stútfull er af gómsætum þurrkuðum ávöxtum og möndlum og á ættir að rekja til Þýskalands. Það eru til mismunandi uppskriftir að stollen og eru sumar nær því að vera kaka en aðrar nær því að vera brauð. Þessi uppskrift lendir einhvers staðar þar á milli. Vegna þess hver rík húner af þurrkuðum ávöxtum, smjöri og sykri þá geymist hún mjög vel og er gott að hafa hana til taks um hátíðarnar.

Innihald

Í fjögur lítil brauð eða einn stóran hring

Fylling
150 grömm möndluflögur, ristaðar
50 millilítrar kalt vatn
100 grömm dökkar rúsínur
100 grömm gullrúsínur
100 grömm trönuber
100 millilítrar romm
50 grömm sykrað engifer, í litlum bitum
50 grömm sykraður appelsínubörkur, í litlum bitum

Deig
20 grömm þurrger
150 millilítrar mjólk, við herbergishita
500 grömm hveiti
100 grömm rúgmjöl
150 grömm sykur
2 teskeiðar þurrkað engifer
1 teskeið salt
1 teskeið kanill
1 teskeið kardimommur
1 teskeið nýrifið múskat
Nýrifinn börkur af lítilli sítrónu
Nýrifinn börkur af hálfri appelsínu
400 grömm bráðið smjör
1 matskeið hunang
1 eggjarauða
1 teskeið vanilludropar

Til að sáldra yfir brauðið
100 grömm flórsykur eða eftir smekk

Leiðbeiningar

  1. Fyrir fyllingur: Forhitið ofninn í 180°C. Dreifið möndluflögum jafnt yfir bökunarplötu með smjörpappír og ristið í um 10 mínútur eða þar til þær eru orðnar gullinbrúnar. Hrærið af og til í möndlunum svo þær ristist jafnt. Setjið þær síðan í litla skál, hellið vatninu yfir og setjið plastfilmu yfir skálina. Blandið saman rúsínum, trönuberjum og rommi í aðra litla skál. Setjið plastfilmu yfir skálina. Látið standa yfir nótt.

  1. Fyrir deig: Blandið saman mjólkinni og þurrgerinu í miðlungsstórri skál. Bætið því næst 150 grömmum af hveiti saman við og hrærið saman. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið standa í 1 klukkutíma.

  2. Blandið saman restinni af hveitinu (350 grömm), rúgmjöli, 50 grömmum af sykri, 1 teskeið af þurrkuðu engiferi, salti, kanil, kardimommum, múskati og sítrusberki í stórri skál. Bætið við 200 grömmum af smjöri, hunangi, eggjarauðu og vanilludropum. Hrærið deigið vel saman þar til það líkist smákökudeigi. Takið þriðjung af gerdeiginu og hnoðið saman við smákökudeigið í eina mínútu eða þar til deigin tvö hafa sameinast að mestu leyti. Endurtakið með hina tvo þriðjungana. Hnoðið deigið áfram í 5 mínútur.

  3. Ef gera á fjögur lítil brauð þá er rúsínublöndunni, ristuðu möndluflögunum, sykraða engiferinu og sykraða appelsínuberkinum bætt við á þessu stigi og öllu hnoðað vel saman. Setjið deigið í skál, hyljið með plastfilmu og látið hefast í 1 klukkutíma. Takið þá deigið úr skálinni, hnoðið í 5 mínútur og látið það hefast aftur í 1 klukkutíma.

  4. Fletjið deigið út í ferhyrning sem er um 60 sentímetrar á breidd og 40 sentímetrar á hæð. Dreifið rúsínublöndunni, ristuðu möndluflögunum, sykraða engiferinu og sykraða appelsínuberkinum jafnt yfir deigið og rúllið því varlega upp. Komið lengjunni fyrir á bökunarplötu með smjörpappír og mótið í hring. Ef gera á fjögur lítil brauð er deiginu skipt í fjóra hluta, þau mótuð í aflöng brauð og sett á bökunarplötu með smjörpappír. Leggið hreint viskustykki yfir brauðin eða hringinn og látið hefast í 1 klukkutíma.

  5. Forhitið ofninn í 180°C og bakið í um 45 mínútur. Blandið saman restinni af sykrinum (100 grömm) og engiferinu (1 teskeið). Penslið brauðið um leið og það kemur út úr ofninum nokkrum sinnum með restinni af bráðna smjörinu (200 grömm) og látið það drekka allt smjörið í sig. Því næst er engifersykrinum nuddað um allt brauðið og það síðan látið kólna þar til það hefur náð herbergishita.

  6. Sáldrið flórsykri yfir og undir allt brauðið og nuddið það með höndunum. Sáldrið að lokum þunnu fallegu lagi yfir allt brauðið.