Súkkulaðibitakökur

smakokur-1

Það eru nokkrir hlutir sem mér finnst nauðsynlegir í desember og um jólahátíðina: eyða tíma með fjölskyldu og vinum, mandarínur, konfekt og svo smákökur. Það eiga allir sína uppáhalds sort en mín er súkkulaðibitakökur. Þessar smákökur eru með djúpu karamellubragði, stökkar að utan, mjúkar að innan og stútfullar af súkkulaðibitum og ristuðum valhnetum.

Í 40-50 stykki.

Innihald

250 grömm hveiti
½ teskeið matarsódi
200 grömm smjör, skorið í teninga
150 grömm púðursykur
100 grömm strásykur
1 teskeið salt
2 teskeiðar vanilludropar
2 stór egg
200 grömm suðusúkkulaði (2 plötur), grófsaxað
100 grömm valhnetur, ristaðar og grófsaxaðar

Leiðbeiningar

  1. Forhitið ofninn í 200°C. Setjið hveitið á stóra pönnu og hitið á miðlungsháum hita. Hrærið stöðugt í með þeytara þar til hveitið er orðið drapplitað (6-7 mínútur). Setjið hveitið í litla skál og hrærið matarsódanum saman við.

  2. Strjúkið af pönnunni og bræðið 150 grömm af smjörinu yfir miðlungsháum hita. Hringsnúið pönnunni af og til og strjúkið botninn með sleikju. Hitið smjörið þar til mjólkurþurrefnin í smjörinu eru orðin brún og smjörið ilmar eins og heslihnetur, það tekur um 3 mínútur. Hellið smjörinu í stóra skál og náið restinni úr pönnunni með sleikju. Bætið því sem eftir er af óbráðna smjörinu (50 grömm)  út í heitt bráðið smjörið og hrærið í þar til það er algjörlega bráðið.

  3. Bætið púðursykri, strásykri, salti og vanilludropum út í smjörið og hrærið þar til blandan er orðin einsleit. Bætið þá við eggjunum,  hrærið í hálfa mínútu og látið blönduna standa í um 15 mínútur. Hrærið að lokum aftur í hálfa mínútu eða þar til blandan er orðin að þykkri, sléttri og gljáandi karamellu.

  4. Bætið hveitinu með matarsódanum öllu í einu út í karamelluna og hrærið í deiginu með sleif þar til karamellan hefur tekið allt hveitið í sig. Hrærið að lokum súkkulaði og ristuðum valhnetum saman við.

  5. Mótið deigið í kúlur sem eru um 1 matskeið hver og raðið með 5 sentímetra millibili á smjörpappírslagða bökunarplötu. Bakið smákökurnar í 10-15 mínútur eða þar til smákökurnar eru gullinbrúnar, jaðrarnir orðnir stökkir en miðjan enn nokkuð mjúk. Raðið heitum súkkulaðibitakökunum á grind og reynið að láta þær kólna alveg – það er næsta ómögulegt!