Súrupestó

1 lítil krukka

pesto-uppskriftFlestir kannast við hið klassíska pestó sem kennt er við Genóa þar sem basil, furuhnetum, hvítlauk, salti, parmesanosti og jómfrúarolíu er maukað saman í dýrindis sósu. Það er hins vegar hægt að leika sér með innihaldsefnin og gera ýmsar skemmtilegar tegundir af pestó, þar á meðal úr hundasúrum. Í staðinn fyrir furuhnetur set ég kasjúhnetur og einnig bæti ég við smá límónuberki til að ýta undir súrubragðið.

Innihald

50 grömm kasjúhnetur
Börkur af einni límónu
2 hvítlauksrif
100 grömm súrur
Salt
50 grömm parmesanostur
150 millilítrar jómfrúarolía

Leiðbeiningar

  1. Maukið fyrst saman kasjúhnetum, límónuberki og hvítlauk í stóru mortéli þar til það er orðið að tiltölulega þykku mauki. Setjið maukið til hliðar á meðan unnið er með súrurnar.

  2. Þar sem erfitt er að koma öllum súrunum fyrir í einu í mortélinu er best að vinna með þær í skömmtum. Bætið örlitlu salti við í hvert skipti sem fleiri súrum er bætt í en það virkar eins og sandpappír og hjálpar til við að brjóta niður súrurnar.

  3. Þegar allar súrurnar hafa verið maukaðar bætið þá hnetumaukinu við og vinnið allt vel saman með hnallinum. Bætið parmesanostinum saman við í nokkrum skömmtum og síðan jómfrúarolíunni hægt og rólega. Magnið af olíu fer allt eftir því hversu þykkt pestóið á að vera.

  4. Það er einnig hægt að setja öll innihaldsefnin í matvinnsluvél til að mauka þau og bragða síðan til með salti.