Sveppir og fennika á ristuðu brauði

Fyrir 4

sveppabraud2Skógurinn er ekki bara gefandi fyrir andann heldur leynast víða á skógarbotnum mikil verðmæti, nefnilega sveppir af öllum stærðum og gerðum. Áður en það er farið í sveppamó er mikilvægt að kynna sér hvaða sveppir eru ætir og nauðsynlegt að vera með nýjar áreiðanlegar upplýsingar. Flóran getur breyst milli ára, alltaf bætast við nýjar tegundir og sumir sveppir geta verið mjög eitraðir. Það er einn sérstakur sveppur sem margir eru á höttunum eftir en það er kóngssveppurinn. Hann er brúnn að lit, með gildvöxnum staf og er einn albesti ætisveppur sem finnst hér á landi og þó víðar væri leitað.

Besta geymsluaðferðin á sveppum er að þurrka þá. Hitið blástursofn á um 50°C hita. Skerið sveppina í 3 millímetra sneiðar og raðið í einfalt lag á vírgrind. Á meðan þeir eru í ofninum, hafið ofnhurðina opna svo rakinn eigi greiða leið út. Þurrkið sveppina í nokkra tíma eða þar til þeir eru algjörlega þurrir og stökkir. Leyfið þeim að kólna og setjið svo í loftþétt ílát. Geymið á þurrum og skuggsælum stað.

Þurrkaða sveppi þarf að leggja í bleyti áður en þeir eru notaðir. Best er að leggja þá í kalt vatn yfir nótt til að viðhalda bragðinu betur en einnig er hægt að láta þá í heitt vatn í um 30 mínútur. Þeir draga í sig 3-4 sinnum magn af vatni miðað við þyngd og eru því 100 grömm af þurrkuðum sveppum jafngildi 300-400 gramma af ferskum. Ekki hella vökvanum sem eftir situr því þetta er yndislegt sveppasoð sem hægt er að nota í súpur og sósur.

Innihald

2-4 matskeiðar smjör
1 stór kóngssveppur, skorinn í þykkar sneiðar
1 stór fennika, sneidd þunnt
Salt
Nýmalaður pipar
Timjan
4 þykkar ristaðar brauðsneiðar, til dæmis heilhveitibrauð
2 stórir hvítlauksgeirar

Leiðbeiningar

  1. Bræðið smjör á stórri pönnu á miðlungsháum hita. Þegar smjörið er farið að freyða bætið sveppunum á pönnna og steikið þá þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir. Bætið þá fennikunni við og steikið þangað til hún fer að taka lit og er orðin mjúk. Kryddið með salti, pipar og fersku timjani.

  2. Ristið brauðsneiðarnar og nuddið hvítlauksgeirunum á yfirborðið. Deilið sveppunum og fennikunni yfir brauðsneiðarnar fjórar ásamt pönnusafanum.