Þáttur 4 – Mannamót

Yfir hásumarið er nóg að gera í sveitinni. Milli verka lyfta menn sér upp og fara á mannamót. Árna finnst hann vart gjaldgengur bóndi taki hann ekki þátt í sumarhátíð Kaupfélags Borgfirðinga. Vaskur tekur hann þátt í bændaþríþrautinni með liði uppsveitunga en þrátt fyrir góða tilburði og kapp, ganga leikar ekki eins og hann hafði óskað. Eftir átökin fer hann heim í Árdal og grillar sér pitsu í matjurtargarðinum og hvílir lúin bein. 

Nú fer að renna upp sú stund sem Árni hefur beðið eftir. Tími skaðvaldsins, kálflugunnar, er liðinn og óhætt að taka dúkana af kálbeðunum. Garðurinn hefur nú breyst úr hálfgerðu moldarflagi í myndarlegan matjurtagarð. Árni tekur út garðinn og skoðar plönturnar og stenst ekki mátið að elda máltíð úr litfagurri beðjunni sem vex svo vel hjá honum.

Í Árdal er rifsberjarunni sem er hreinlega að sligast af berjum. Það er bændamarkaður í Reykholti á næsta leiti og Árni sér gullið tækifæri til að breyta þessu safaríka rifsi í reiðufé. Árni býr einnig til gómsæta rauðlaukssultu og veltir fyrir sér hvernig hann getur markaðsett vörurnar sínar á markaðinum.

Sólin skín í heiði þegar bændamarkaðurinn fer fram og stemmningin er góð. Sértaklega þegar Valdi í Brekkukoti leikur á nikkuna. Árni og Kristín Erla vinkona hans koma sér fyrir með Árdalsvörurnar: þrjár tegundir af heimabökuðu brauði, fjórar af sultum og hlaupi, rifsberjagos auk þess að bjóða fólki að smakka ricottaost bæði úr kúamjólk og geitamjólk. Aðalaðdráttaraflið eru þó steikarsamlokur með heimagerðum ricottaosti, nautakjöti frá Glitstöðum, rauðlaukssultu og brakandi fersku salati úr Árdalsgarðinum.

Eftir ábatasaman dag heldur Árni heim á leið með tómar körfur, en tvo glettna grísi sem hann kaupir fyrir hagnaðinn af markaðnum.