Tómatsósa

tomatsosa
Orðið ketchup er komið af kínverska orðinu kê-tsiap, sem var sósan gerð úr gerjuðum ansjósum og þekkist í dag sem fiskisósa. Breskir sjómenn reyndu að endurgera sósuna þegar þeir komu úr sjóferðum frá Suðaustur-Asíu og fram til lok nítjándu aldar þekktu flestir ketchup sem sósu gerða úr valhnetum eða sveppum gerjuðum í bjór. Það voru síðan Bandaríkjamenn sem bættu tómötunum við og á Henry J. Heinz heiðurinn að þeirri tómatsósu sem við þekkjum í dag.

Í þessa uppskrift nota ég passata sem er óeldað mauk af tómötum sem búið er að afhýða og fræhreinsa. Þá er grunnur kross skorinn í hvern tómat, þeir snöggsoðnir í 30 sekúndur og settir um leið í ísvatn. Þeir eru síðan afhýddir, maukaðir í grænmetiskvörn eða blandara og sósan loks sigtuð til að ná fræjunum úr. Um eitt og hálft kíló af tómötum þarf í einn lítra af passata.

Best er að elda tómatsósuna í nokkuð háum potti og fylla hann bara til hálfs. Þegar sósan þykknar byrjar hún nefnilega að slettast út í allar áttir. Það verður mun auðveldara að þrífa upp eftir eldamennskuna.

Í rúm 500 grömm af tómatsósu

Innihald

1 stór laukur, sneiddur þunnt
1 sellerístöngull, sneidd þunnt
½ fennika, kjarnhreinsuð og sneidd þunnt
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
1 teskeið salt
1 teskeið malað sinnep
¼ teskeið malaður negull
¼ teskeið malað allrahanda
¼ teskeið chiliduft
100 grömm sykur
10 grömm melassi
100 millilítrar eplaedik
1 lítri tómatmauk (passata)

Leiðbeiningar

  1. Hitið vænan slurk af ólífuolíu í stórum steypujárnspotti við miðlungslágan hita. Mýkið lauk, sellerístöngul og fenniku í olíunni í um 10 mínútur og hrærið oft í. Bætið við hvítlauk, salti, sinnepi, negul, allrahanda og chilidufti og hrærið við grænmetið í um 30 sekúndur. Hrærið þá sykri, melassa, eplaediki og tómatmauki saman við. Hækkið í hæsta hita til að ná upp suðunni og lækkið þá strax aftur niður í lægsta hita. Látið blönduna malla, án loks, í 1 til 1 og ½ tíma eða þar til hún hefur minnkað um helming. Hrærið af og til í og skrapið botninn til að sjá til þess að hún brenni ekki við botninn.
  2. Látið tómatblönduna kólna örlítið og maukið hana síðan í grænmetiskvörn eða blandara. Sigtið sósuna í skál og notið sleikju til að þrýsta henni í gegn. Trefjamestu hlutarnir verða þá eftir og sósan verður silkimjúk. Setjið sósuna í sótthreinsaða krukkur og geymið inni í ísskáp í allt að 6 mánuði