Tortelloni með graskersfyllingu

Handa 4

Þessi tortelloniuppskrift kemur frá Ferrara á Ítalíu og er það borið fram með saðsamri kjötsósu. Það er gaman að búa til sitt eigið pasta og ef engin pastavél er á heimilinu þá er alveg hægt að fletja degið út í höndunum, sem er þó töluvert erfiðara. Þegar degið er flatt út í pastavélinni er gott að skera lengjurnar til helminga þegar þær eru orðnar of langar til að meðhöndla.

Fræin sem skafin eru úr graskerinu er tilvalið að rista á pönnu, strá smá salti yfir og njóta sem snarls.

Innihald

Pastadeig
300 grömm hveiti
½ teskeið salt
3 egg
3 eggjarauður 

Graskersfylling
1 stórt butternut grasker
Salt
Nýmalaður pipar
2 eggjarauður
2 matskeiðar smjör, brúnað
5 stór salvíublöð, söxuð
100 millilítar rjómi
3 matskeiðar nýrifinn parmesanostur

Leiðbeiningar

Pasta
Setjið hveitið í hrúgu á borð og gerið hvilft í miðjuna. Brjótið eggin ofan í og saltið. Notið gaffal til að slá eggin og bætið við hveiti úr hliðunum smátt og smátt. Þegar deigið er farið að taka á sig mynd, notið þá fingurna til að hnoða meira hveiti í það. Setjið deigið til hliðar þegar það er orðið nægilega þurrt og hreinsið borðið. Hnoðið deigið í um 10 mínútur eða þar til það er orðið teygjanlegt og slétt. Pakkið deiginu í plastfilmu og látið það hvíla í kæliskáp í að minnsta kosti klukkutíma.

Graskersfylling

  1. Hitið ofninn í 180°C. Skerið graskerið langsum til helminga og skafið úr öll fræ og trénaða hluta. Setjið graskershelmingana í ofnskúffu með skurðhliðina upp og penslið með olíu. Saltið og piprið graskerið og bakið í um 90 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt í gegn.

  2. Á meðan graskerið bakast, bræðið smjör í litlum potti við miðlungshita þar til mjólkurþurrefnin í því byrja að brúnast og smjörið ilmar eins og heslihnetur. Bætið rjómanum og salvíunni við og sjóðið rólega niður um helming. Setjið til hliðar.

  3. Þegar graskerið er eldað í gegn, leyfið því að kólna við stofuhita svo auðveldara sé að meðhöndla það. Skafið kjötið úr og maukið í grænmetiskvörn. Hrærið eggjarauðunum saman við einni í einu, svo salvíurjómanum og loks parmesanostinum. Bragðið fyllinguna til með salti og pipar. Hyljið skálina með plastfilmu og látið fyllinguna kólna í kæliskáp í um tvo tíma. 

Tortelloni

  1. Takið pastadegið úr kæliskápnum og skerið í þrjá hluta. Mótið hvern hluta í ferhyrning og rennið þeim í gegnum víðustu stillingu á pastavél. Á meðan unnið er með einn hluta eru hinir hlutarnir geymdir í röku stykki. Þrengið stillinguna á pastavélinni og rennið öllum þremur hlutunum aftur í gegn. Gott er að dusta deigið með hveiti af og til. Haldið áfram að renna deiginu í gegnum pastavélina þar til deigið er orðið það þunnt að hægt er að sjá útlínur og húðlit handanna í gegnum það.

  2. Takið fyllinguna út úr kæliskápnum. Vinnið með einn deighluta í einu og geymið hina undir röku stykki svo þeir þorni ekki. Skerið deigið í ferninga sem eru 5 sentímetrar á kant og setjið um 1 teskeið af fyllingu á hvern ferning. Notið eggjahvítuna sem var ekki nýtt í pastadeigið og berið hana á tvo kanta á einum ferninganna. Brjótið ferninginn saman horn í horn og verið viss um að kantarnir séu vel límdir saman og að það sé sem minnst loft inni í deiginu. Brjótið því næst langhliðina á þríhyrningnum varlega upp að horninu á móti, vefjið deigið í kringum vísifingur og klemmið endana saman. Haldið svona áfram með næsta ferning og þar til deigið er búið. Setjið tortellonikoddana á hveitistráðan disk eða plötu og dustið af og til með hveiti svo koddarnir festist ekki saman. Á þessu stigi má frysta koddana og setja í plastpoka þegar þeir eru frosnir í gegn.

  3. Hitið vatn í stórum potti og saltið vel þegar vatnið bullsýður.  Setjið tortellonikoddana út í. Koddarnir munu sökkva niður á botn pottsins en þegar þeir fljóta upp á yfirborðið eru þeir soðnir í um 1-2 mínútur, eða eftir smekk. Veiðið koddana upp með gataspaða, veltið upp úr góðri kjötsósu og berið síðan fram með ferskum parmesanosti.