Uppskerusúpa

Fyrir 6

uppskerusupaÞetta er einföld, litrík og bragðgóð grænmetissúpa og í hana er hægt að nota allt það grænmeti sem mann lystir. Það er um að gera að nýta það sem er í boði á hverjum árstíma og er ferskast hverju sinni. Í garðinum í Árdal var ýmislegt spennandi á boðstólnum og nýtti ég til að mynda sellerírót með stöngli og blöðum í stað sellerístilka.

Súpuna bar ég fram í nýbökuðum brauðskálum. Þær gerði ég úr brauðuppskriftinni frá þriðja þætti en ein uppskrift dugir í tvær brauðskálar.

Innihald

Baunir
400 grömm smjörbaunir (lima beans), lagðar í bleyti yfir nótt.
1,5 lítri vatn
1 laukur, flysjaður og skorinn í fjórðunga
4 steinseljugreinar
2 teskeiðar salt

Súpa
4 matskeiðar jómfrúarolía
1 laukur, fínsaxaður
1 lítil sellerírót með stöngli og blöðum, fínsöxuð
200 grömm blöðrukál, sneitt
200 grömm grænkál, sneitt
200 grömm svartkál, sneitt
200 grömm gulrófa, skorin í 2 sentímetra teninga
300 grömm kartöflusmælki
200 grömm litlar rauðrófur með stöngli og blöðum, sneiddar
500 grömm heilir dósatómatar, maukaðir
Salt
Nýmalaður pipar
Vatn

Leiðbeiningar

Baunir

  1. Hellið vatninu af baununum og setjið þær í stóran pott ásamt nýju vatni, lauk, steinselju og salti. Náið upp suðunni og fleytið froðuna af. Lækkið hitann og látið baunirnar malla í opnum pottinum á vægum hita í um tvo tíma.

  2. Leyfið baununum að kólna í nokkrar mínútur. Fjarlægið laukinn og steinseljuna og maukið helminginn af baununum með örlitlu af soðvatninu. Blandið saman maukinu, heilu baununum og restinni af soðvatninu og geymið þar til síðar.

Súpa

  1. Hitið 2 matskeiðar af jómfrúarolíu í stórum potti á miðlungshita. Steikið laukinn og sellerírótina í olíunni í nokkrar mínútur eða þar til þau eru orðin mjúk. Bætið blöðru-, græn- og svartkáli í pottinn og veltið um þar það byrjar að hjaðna. Setjið þá restina af grænmetinu út í: gulrófa, kartöflusmælki og rauðrófur. Hellið 2 matskeiðum af jómfrúarolíu yfir ásamt maukuðum tómötum. Hrærið öllu vel saman og kryddið með salti og pipar. Setjið lok á pottinn, lækkið hitann og látið grænmetið malla við vægan hita í 10 mínútur.

  2. Bætið við baunamaukinu, heilu baununum og soðvatninu og hrærið vel saman við. Bætið við köldu vatni þannig að það nái upp að efsta lagi grænmetisins. Náið upp suðunni og látið malla við vægan hita í lokuðum potti í um 45 mínútur eða þar til grænmetið er orðið meyrt. Ef súpan virðist of þykk þá er hægt að þynna hana út með köldu vatni og ná hitanum upp á henni aftur.