Veiðiloka

veidiloka

Á veiðum er best að hafa eitthvað einfalt og saðsamt í nesti, helst eitthvað sem hægt er að borða með höndunum.  Þess vegna eru samlokur alveg tilvaldar. Þessi veiðiloka er fyllt með nautasteik og duxelles, sem er ilmandi blanda af sveppum og skalottlauk. Rifin piparrót og Dijon-sinnep fara síðan einstaklega vel með nautakjötinu. Öllu er síðan pakkað í heimabakað brauð sem búið er að hola að innan og samlokan síðan fergð í nokkra klukkutíma til að þétta hana. Þetta er fullkomin samloka í bakpokann.

Það verður heilmikið eftir af brauði þegar búið er að hola brauðhleifinn. Ekki láta það fara til spillis heldur rífið það niður og þurrkið í ofni til að búa til brauðmylsnu.

Innihald

Í eina stóra samloku

1 stórt kringlótt brauð
100 grömm smjör
250 grömm skalottlaukar, afhýddir og saxaðir smátt
50 grömm þurrkaðir kóngssveppir, lagðir í bleyti yfir nótt eða 500 grömm ferskir hvítir sveppir, skornir í litla teninga
Salt og nýmalaður pipar
1 lúka fínsöxuð steinselja
5-800 grömm entrecote eða ribeye sem eru svipaðar að flatarmáli og brauðhleifurinn
Dijon-sinnep
Piparrót

Leiðbeiningar

  1. Skerið efsta fjórðunginn af brauðinu og haldið honum til haga. Holið brauðið að innan.

  2. Bræðið smjörið á stórri pönnu og mýkið laukinn í því. Bætið sveppunum á pönnuna ásamt salti og pipar. Steikið kóngssveppina þar til þeir eru orðnir gullinbrúnir. Ef notaðir eru ferskir hvítir sveppir, steikið þá sveppina þar til vatnið í þeim byrjar að gufa upp og blandan er orðin tiltölulega þurr. Takið sveppablönduna af hitanum, bætið við vænni lúku af steinselju og setjið til hliðar.

  3. Hitið steypujárnspönnu þar til hún er orðin vel heit. Þerrið steikurnar vel og penslið þær með olíu. Saltið þær vel en sleppið piparnum á þessu stigi þar sem hann verður beiskur ef hann hitnar of mikið. Leggið steikurnar á snarpheita pönnuna og brúnið þær á öllum hliðum. Ef steikurnar eru tiltölulega þunnar þá er hægt að elda þær allan tímann á pönnunni og snúa þeim þá á 30 sekúndna fresti til að þær eldist jafnt. Fyrir þykkari stykki þá er betra að klára steikinguna í 200°C heitum ofni. Fyrir meðalsteikt kjöt, þar sem miðjan er bleik á lit og heit, þá á kjarnhiti þess að vera 60-65°C.

  4. Smyrjið holt brauðið að innan með sinnepi og rífið vel af piparrótinni yfir botninn. Skerið steikurnar til og leggið eins margar og komast í einu lagi í botn brauðsins. Setjið því næst alla sveppablönduna í brauðið og þrýstið út í hliðar þess. Leggið það sem eftir er af steikinni ofan á sveppablönduna, rífið piparrót yfir og smyrjið brauðlokið með sinnepi. Ef notaðir eru þurrkaðir sveppir er gott að leysa upp skófirnar af pönnunni með sveppasoðinu og sjóða það niður í þykkan kraft og bæta honum í samlokuna. Einnig er hægt að nota vatn eða gott vín til að leysa upp skófirnar.

  5. Setjið brauðlokið ofan á brauðið, pakkið samlokunni í smjörpappír og bindið vel utan um hana þannig að hún líti út eins og böggull. Pakkið henni í tvö lög af álpappír og setjið hana undir eins þungt farg og hægt er í 6 klukkutíma eða yfir nótt. Hægt er að fergja hana á ýmsa vegu en ég setti mína í ostapressu og fergði hana með þungum steinhnullungi. Einnig er hægt að setja stórt sterkt skurðarbretti ofan á samlokuna og fergja með lóðum, steinum, niðursuðudósum, hveitipokum eða öðru slíku.
  6. Skerið samlokuna í geira og berið fram.